Tölvuskólinn iSoft-Þekking verður PROMENNT

Á síðasta aðalfundi Tölvuskólans iSoft – Þekkingar var tekin ákvörðun um að breyta nafni fyrirtækisins í PROMENNT ehf. sem jafnframt verður vörumerki fyrirtækisins. Nafnið Tölvuskólinn iSoft – Þekking verður með þessu lagt niður.

Er hið nýja nafn hugsað sem samsetning af enska orðinu PRO sem er stytting á orðinu PROFESSIONAL og merkir fagmannlegur og orðinu MENNT sem er bein tilvísun í íslenska orðið MENNTUN. Teljum við að hér tvinnist vel saman okkar ástkæra íslenska við það ágæta tungumál ensku og lýsi þeirri ímynd sem fyrirtækið hefur: fagmannleg menntastofnun.

Aðal ástæður sem liggja að baki nafnbreytingunni eru efitrfarandi: í fyrsta lagi var gamla nafnið samasett úr tveimur ólíkum nöfnum og þótti nafnið Tölvuskólinn iSoft – Þekking ekki auðvelt að muna og því ekki tilvalið sem vörumerki í markaðssetningu. Í öðru lagi var nafnið sérlega erfitt gagnvart erlendum aðilum.

Af gefnu tilefni viljum við taka það fram að við störfum ennþá undir sömu kennitölu og áður. Hér starfar líka áfram sama frábæra fólkið, á sama staðnum, við bjóðum ennþá upp á sömu flottu námskeiðin – ásamt nokkrum nýjum til viðbótar … og hér eru auðvitað áfram sömu flottu nemendurnir … allt frá byrjendum til sérfræðinga!